Blog

Kartöfluræktun

Ég er alltaf að rækta eitthvað mér til skemmtunar og það gleður mig hvað það hafa margir gaman af því að fylgjast með og kannski getið þið lært eitthvað af tilraunum mínum. Ég ákvað að prófa að setja niður kartöflur í garðinum heima og það hefur komið mér á óvart hversu hratt þær spretta. Ég nota hvorki eitur né tilbúinn áburð á neitt sem ég rækta svo þetta er allt lífrænt hjá mér. Það hefur rignt hressilega undanfarið svo ég hef lítið þurft að vökva. Hér eru tvær myndir til fróðleiks.

 

Auglýsingar

Vorsalat úr eldhúsinu mínu

1a

Má til með að deila með ykkur uppskrift af þessu dásamlega vorlega salati sem ég bjó til í dag. Það er frekar einfalt og mjög gott.

Innihald: Spínat, tómatar, avókadó, epli, mynta, sítrónusafi, ólífuolía, balsamedik og grísk kryddblanda.

Vorið kemur

Var svo ánægð með nýja rabarbarann sem ég færði í nýja matjurtabeðið í gær. Í dag snjóaði. Svona er að búa á Íslandi. Það er betra að breiða dúk eða plast yfir viðkvæman gróður að minnsta kosti á meðan hann er að koma sér á strik. Við gefumst samt ekki upp. Vorið kemur og það á að hlýna mikið í næstu viku. Vinkonur mínar eru þegar búnar að panta hjá mér rabarbara og hver veit nema ég sulti eitthvað skemmtilegt þegar líður á sumarið og setji myndir og uppskriftir hér inn. Gleðilegt sumar!

Skógrækt

Ég lengi haft áhuga á skógrækt enda er hún bæði mannbætandi og góð fyrir umhverfi okkar. Það er skemmtilegt áhugamál að hugsa vel um allan gróður og láta þannig láta gott af sér leiða. Hér eru nokkrar myndir af trjám sem ég hef gróðursett sjálf með góðu fólki eða bara haft ánægju af að fylgjast með vaxa og dafna. Nú hafa japanskir vísindamenn einnig fundið það út að skógargöngur eru bæði hollar fyrir líkama og sál.

Hér er hægt að lesa meira um birki fyrir þá sem hafa áhuga:

http://www.skogur.is/utgafa-og-fraedsla/trjategundir/lauftre/birkitegundir/

Sumardagurinn fyrsti

2a

Sumardagurinn fyrsti er alltaf sérstakur dagur. Fann þennan skemmtilega texta sem ég skrifaði á fésbókina árið 2012 og læt hann flakka hér fyrir ykkur sem hafið gaman af að lesa það sem ég skrifa. Lengi lifi lífsgleðin!

„Blessuð sé hún bölvuð sólin sem skín inn um skítugan glugga og blessaður sé hann gusturinn sem þyrlar upp ryki. Gul gólftuska bíður spennt eftir að fá að dansa um öll gólf. Gleðilegt sumar!“

Sund

4a

Sund er frábær íþrótt. Ég fer og syndi í Laugardalslauginni á hverjum einasta degi og finnst það alltaf jafn dásamlegt. Syndi bæði bringusund og baksund og svo tek ég líka flot og fer í heitu pottana ef ég hef tíma. Það er mikill lúxus að hafa aðgang að þessum dásamlegu sundlaugum. Sund er bæði skemmtilegt og heilsubætandi.

Það er mikið af kennslumyndböndum á youtube fyrir fólk sem hefur áhuga á að læra að synda eða bæta sig. Hér er skriðsundkennsla:

Flotkennsla. Æfingin skapar meistarann:

Bláberjapönnukökur

 

1b

Bakaði þessar bláberjapönnukökur í morgun. Uppskriftin er einföld: Egg, tröllahafrar, AB-mjólk, bláber, kanill og lyftiduft. Ekkert hveiti og enginn sykur. Set nokkra dropa af repjuolíu og smjöri á pönnuna svo kökurnar festist ekki við hana. Það má útfæra þessa uppskrift á marga vegu og skipta bláberjunum út fyrir banana, epli eða eitthvað annað sem þér finnst gott. Það má smyrja þær með smjöri og osti eða bara osti, hnetusmjöri eða sultu. Það fer eftir smekk. Það er ótrúlegt hvað hægt er að búa til góðar pönnukökur úr hollu hráefni. Gangi þér vel!

 

 

 

Litla litríka landnámshænan 1. kafli

Við sem löbbuðum í skólann með slitna skólatösku með örfáum þunnum bókum, stílabók, reikningsbók, blýanti og strokleðri og seinna blekpenna sem við vönduðum okkur svo mikið við að nota, höfðum ekki hugmynd um að seinna yrði eitthvað til sem héti tölva. Litla gula hænan fann fræ. Það var hveitifræ. Svo komu fyrstu tölvuhlunkarnir og hvað gerðist? Við settumst við skjáinn og fórum að lesa, skrifa og ferðast um heiminn á skjánum og fyrr en varði höfðum við sjálf breyst í tölvuhlunka. Svo komu fartölvurnar og þá urðum við nú hreyfanlegri og sveigjanlegri, gátum fært okkur á milli staða með þessi undratæki sem breyttu lífi okkar svo um munaði. Svo komu snjallsímar og spjaldtölvur sem gerðu jafnvel smábörnum kleift að læra á tölvu. Litla litríka landnámshænan fann fræ. Það var byggfræ. Það hefur aldrei verið hægt að rækta hveiti á Íslandi.